<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, júlí 30, 2005

Verslunarmannahelgi 

Ég er ekki að fara til Eyja og heldur ekki í Galtalæk um helgina. Ég ætla að vera heima með minni familíu og hafa það næs. Grilla með vinum og ættingjum, kíkja upp í bústað til tengdó og rölta út í náttúrunni í nágreni heimilisins.

Sú var tíð að spennan innra með Erlu unglingi magnaðist þegar á leið verzló. Ég fór á nokkur góð útilegudjömm um þessa frægu fylleríshelgi. Þetta byrjaði nú samt allt voðalega sakleysislega með því að ég gekk í lið Góðtemplara og fór í Galtalæk undir þeim formerkjum að ég væri að vinna. Og jú, ég vann eitthvað. Í tívolíinu á staðnum og einnig við að spotta unglinga sem voru að drekka. Þá átti ég að klaga í yfirmenninga sem komu í löggufíling og helltu niður öllu sem var sterkara en malt. Ó, já. Ég var 14 ára og drakk sko ekki dropa. Þurftir þess ekki af því ég var svo náttúrulega hress (aha...!) Klagaði bara og fékk hrós fyrir. Ég fór í Galtalæk tvisvar sinnum og í annað sinn var ég ásamt fleiri vinkonum farin að svíkjast aaaðeins undan og leika sjálfar löggurnar, taka vínið af drukknum unglingunum hella pínu niður, en drekka restina svo sjálfar. Já, ég var ekki lengi Góðtemplari. Þótt ég hafi nú samt verið góð. Markmiðið var að drekka slatta og finna sæta stráka til að tala við. Þetta var nú allt voðalega saklaust þarna í Galtalæk, en þeim mun svæsnara í Þórsmörk árið eftir um þessa sömu helgi. Úff, bara strákastand og læti. Dottin í það á öllum sviðum. Pæja dauðans með unglingaveiki og á gelgju aldarinnar. Í stuði. En samt alltaf góð og skynsöm. Skemmti mér fallega. Ég veit alla vega að Húnaver og Eldborg sem Viggi sótti áður en við kynntumst voru verra en allt sem ég get lýst...

Þetta er samt upptalið með verslumarmannahelgargigg hjá mér í den. Svo tók búseta í Sviss við og ferðalag um heiminn og þá skipti verzló engu máli. Í seinni tíð hefur þessi langa helgi svo helst verið notuð undir sumarbústaðaferðir eða fjallgöngur. Það er í fyrsta sinn í ár sem ég hangi heima þessa frægu helgi. Nenni ekki út úr bænum, er sannur innipúki. Ætla að skella mér á stuðmannatónleikana annað kvöld bara svona til að sýna lit og hreyfa í mér blóðið. Æj, hvað þetta er nú kósi svona heima í rúminu mínu, ekkert tjald, engin rigning, engin læti, engi æla, engin þvæla...

Er ég orðin gömul að hugsa svona? Ég veit það ekki - en flestir vina okkar eru líka heima þessa helgi í ár. Allir bara að sinna sínum börnum og taka því rólega. Og eru sáttir við liðið verzló-sukklífið.
Úff, ég er greinilega orðin sannur innipúki... ekki alveg minn stíll. Eða það VAR alla vega ekki minn stíll. Þarf að fara að gera eitthvað í þessu.
Á næsta ári tek ég mig á.
Lofa.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Krítarlífið ljúfa 

Ég skal nú barasta segja ykkur það að rauðhausinn kom alls ekki svo ýkja hvít heim frá Krít!

Við dvöldum á Krít undanfarnar 2 vikur í sól og sumri. Þetta er fyrsta alvöru sólarlandaferðin okkar Vigga saman og auðvitað líka fyrsta sólarferðin hennar Veru. Og við urðum sko ekki fyrir vonbrigðum.
Hitinn var fínn, 30 - 38 gráður og ég get svarið það að ég vandist hitanum það vel að ég hreinlega merkti ekki mun á 30 eða 38 gráðum. Ég er jú annáluð kuldaskræfa og var því að fíla hitann í botn. Sleppti því meira að segja að sofa með loftkælinguna á næturnar...brrrrrr. Sólin skein frá morgni til kvölds hvern einasta dag og það var ljúft. Hótelgarðurinn var hinn fínasti og ströndin sem við gerðum að "okkar" einnig. Það var alltaf þægileg gjóla á ströndinni svo kannski þess vegna vorum við ekki að kafna úr hita. Mjög þægilegt.

Lífið var ljúft á Krít. Þetta var svona ljúft leti- og 1. gírs-frí, en það var ekki mikið um aktivití þarna á litlu familíunni. Markmiðið var að slappa af og eyða tíma saman í rólegheitunum og það tókst svo sannarlega. Maður komst í þannig gír að maður hreinlega nennti ekki að gera neitt sem tók á, þ.e. annað en að synda og sóla sig. Það var jú heldur ekki hægt að bjóða Veru upp á bílferðir eða aðrar langar ferðir í þessum hita. Við pabbinn eigum það bara eftir, barnlaus þegar Vera er orðin stór... Þó tókum við einn dag í vatnsrennibrautargarði og annan í sjopping í Chania, borginni sem við vorum við. Eins fórum við yfirleitt inn í borgina að borða og rölta á kvöldin. Einn dag leigðum við 3 fjölskyldur sem vorum að ferðast saman skútu í heilan dag sem sigldi með okkur um hafið blátt í heilan dag. Skipperinn stoppaði með okkur á hrikalega litlum og sætum leyniströndum og bauð upp á busl í tærasta sjó sem ég hef séð. Það var gaman að sjá eyjuna frá sjónum, litlu húsin byggð upp í fjöllin og víkurnar og krúttlegustu strandir í heimi.

Vera að fíla Krítarlífið svaka vel. Hún var í tjillgír eins og foreldrarnir og var sátt við hitann og strandarlífið. Ég hef sjaldan séð dömuna í svona góðu jafnvægi, kannski ekki skrýtið með athygli foreldrana á sér allan sólarhringinn sem hefur ekki gerst áður í svona langan tíma. Vera var hin besta og sat bara í sandinum og mokaði og át sand, lék sér í grasinu í hótelgarðinum eða buslaði í sjónum og sundlauginni í kútnum sínum. Þægilegra gat það ekki verið, bæði fyrir hana og foreldrana.

Lífið var svo einfalt á Krít.
Vakna einhvern tímann seint við Veru, borða morgunmat saman í rólegheitum úti á svölum, taka stærstu ákvörðun dagsins: Ströndin eða sundlaugin??? Smyrja sig og sína og tölta út í góða veðrið og ljúfa lífið. Borða slatta af ávöxtum og grísku salati og tölta af og til í bænum. Já, flóknara var það ekki. Ahhhhh...þvílík sæla. Eftir 2 vikur í þessari rútínu var ég í alvörunni ekki búin að fá nóg. Ég var virkilega til í 1-2 vikur í viðbót af svona lífi takk! En vinnan kallaði á Vigga og ég vissi að Krítarlífið yrði nú lítið gaman án hans.

Svo íslenskur hversdagur er tekinn við. Flókna Íslenska lífið miðað við frílífið ljúfa. Viggi er aftur farinn að vinna og við Vera bara að spóka okkur. Ég hreinlega vissi ekkert hvað við Vera áttum af okkur að gera fyrsta morguninn hér heima. Engin sólarolíusmurning, enginn sjór, sandur... og nú voru góð ráð dýr. Erfiðar spurningar og ákvarðanir eins og: Hvernig er veðrið? Í hvað skal klæða? Of heitt - of kalt? Hvern á að heimsækja? Nennir einhver með okkur í sund? Oh, það er ekkert til í matinn, þarf að versla, -og elda líka! Æjæjæjæjæjæ...

Svo ég datt bara í þunglyndi í einn dag og hugsaði málið í rólegheitunum. Fór ekki úr húsi í 20 gráðunum hér á Íslandi sem hefur held ég aldrei gerst áður hjá mér! Það eru jú 3 vikur eftir að fríinu okkar Veru og vá hvað við erum strax eirðarlausar. Heimsóknir, Nauthólsvíkin, sund og gönguferðir verða á aðaldagskrá þessara vikna. Það verður auðvitað fínt og allt það af því á endanum er heima bezt.
En ég sakna samt ennþá Krítarlífsins ljúfa.

mánudagur, júlí 25, 2005

Eins árs Vera 


Vera Víglunds varð eins árs á Krít Posted by Picasa

Þá er eðaldaman hún Vera Víglunds orðin eins árs í dag, þann 25. júlí! Mömmunni finnst eins og hún hafi fæðst í gær. Oh, gleymi aldrei tilfinningunni þegar ég fékk Veru til mín í fyrsta sinn. Ólýsanlegt. Vera hélt upp á daginn á Krít þar sem hún synti í sjónum og buslaði í lauginni í sól og góðum gír eins og vanalega. Hluti af afmælisdeginum fór líka í flug heim á Frón, en það voru bara 6 klukkutímar, ekki neitt... eh, eða þannig. Ekkert mál fyrir Veru en aðeins meira moj fyrir foreldrana. Afmælisbarnið fékk extra trítment og þolinmæði frá foreldrunum í þessu langa afmælisflugi svo þetta var ekkert mál.

Vera er orðin svo stór og klár. Hún er orðin 77 cm og 10,250 kg. Fyrir áhugasama þá er hún einu staðalfráviki fyrir ofan meðaltal í hæð og hálfu staðalfráviki fyrir ofan meðaltal í þyngd. Svo segja má að hér sé sko ekki um neina meðalmannsekju að ræða heldur eðalVeru sem að sjálfsögðu fer yfir meðallag í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Eða það vill mamman meina! Sætust og klárust og best í heimi :) Til gamans má geta að mamman sjálf var líka 77 cm en ekki nema heil 13 kíló!! Bollan sú. Mamma mín þurfti að klippa upp í allar nærbuxur á mig til að koma þeim yfir lærin og fékk send föt frá systur sinni í Ameríku sem voru keypt í búði fyrir extra fat kids...

Vera tók þvílíkt þroskastökk í fríinu með foreldrunum á Krít undanfarnar 2 vikur. Enda hefur litla fjölskyldan ekki eytt svona miklum tíma saman frá upphafi. Foreldrarnir voru jú með þúsund prósent athygli á dömuna allan sólarhringinn í útlandinu, Vera í nýju spennandi umhverfi og fullt af fólki til að göslast með hana og leika. Svo þroskinn stóð ekki á sér. Á Krít lærði Vera m.a. að sýna á sjálfri sér, með miklum tilþrifum, þegar hún er spurð hvar bumban, nebbinn, táslurnar, puttarnir, eyrað og hárið er. Svo veit hún auðvitað líka hvar nebbinn á mömmu og pabba er og sýnir okkur oft og iðulega hvar nebbinn á okkur er. Svo mjálmar hún afar skrækum tóni þegar hún sér kisur, hvort sem er lifandi eða úr tuskum. Greinilega greind þarna fyrir ofan meðallag, hehe!

Annars er Vera hin ljúfasta vera. Hún er með skap og lætur vita hvað hún vill og hvað ekki með væli eins og lítill hvolpur eða þar til gerðu öskri sem hljómar eins og einhver sé að stinga hana í bakið. Já, um að gera að byrja að stjórna með harðri hendi strax! Vera er þvílíkur stuðbolti og er alltaf brosandi og í góðu skapi, er alltaf að dansa, og ekki bara þegar mamman biður hana um að dansa (skilur orðið svo mikið!!) Hún hefur endalausan kraft og leggur sig yfirleitt aðeins um klukkutíma á dag. Eftir að Vera fór að hreyfa sig (sat jú mest á rassinum þar til að verða 10 mánaða gömul) þá er óhætt að segja að hún sé búin að vera á útopnu. Daman hreinlega stoppar ekki. Er alltaf að. Þarf alltaf að vera að skoða allt, út um allt. Af og til stoppar hún við og dundar sér við lestur bóka þar sem hún babblar heilu sögurnar fyrir sjálfa sig, svakalega fyndið. Eða þá að hún situr við eitt aðaláhugamálið sitt undanfarið sem er að raða dollum ofan í hvora aðra eða setja tappa eða lok á hvers kyns flöskur og brúsa. Sólarolíurnar voru því mjög vinsælar hjá Veru á Krít. Lokið af, lokið á, lokið af, lokið á, lokið af...!

Vera er ekki enn farin að ganga sjálf en fer um allt á fjórum fótum, en rassaskriðið hennar hefur þróast yfir í "venjulega" skriðtækni. Eins stendur hún upp við allt og prílar og gengur með. Okkur foreldrunum finnst eins og það sé þó enn dágóður tími í að hún fari að ganga óstudd, en á meðan einbeitir hún sér þá bara frekar að vitsmunalegu hlið sinni :)

Eins árs Veran mín - til hamingju með afmælið!

sunnudagur, júlí 10, 2005

Amma Gunna 

Jæja, þá er mamma, sem er nú betur þekkt undir nafninu amma Gunna, loks flutt til landsins aftur eftir áratuga dvöl erlendis. Hún fattaði það loks þegar barnabarnið fæddist að það væri ekki svo slæmt eftir allt saman að búa á Íslandi. Og hún lét slaga standa og er komin heim.

Okkur Veru finnst frábært að fá ömmu Gunnu heim. Amma Gunna er flott amma. Nennir alltaf að passa og leika og fara út í labbitúr, en hún á jú bara þetta eina barnabarn til að dúllast með og er alltaf til í að eyða tíma með Veru sinni :) Algjörlega ómissandi svona ömmur!

Amman býr rétt hjá okkur í Hafnarfirðinum og einhvern veginn grunar mig að það eigi eftir að vera ófáar næturpössunirnar hjá ömmu Gunnu í framtíðinni...
Jei, partý on.

Næst: Krít!


Vera og amma Gunna Posted by Picasa

föstudagur, júlí 08, 2005


Vera var að fá nýjan kagga frá afa Sigga og Jónu. Hún er að fíla hann í botn og keyrir út um allt og á allt líka. Og með báða puttana á flautunni!
Mamman á greinilega lítinn bílabrjálæðing... Posted by Picasa

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Krítin mín fríð 

Krítarundirbúningurinn er á fullu hjá mér núna þegar ég er búin að ná mér eftir svaðilför ársins. Búin að kaupa moskítórollon, sólhatt og sólarvörn númer hundrað. Bæði fyrir mig og Veru. Þá er síðasta sjæningin á morgun, vax (er búin að safna heilum 5 mm löngum hárum fyrir þetta blessaða vax!!! ojojojojj...) og litun og plokkun. Svo er það kannski einn ljósatími bara upp á móralinn.

Við förum þrjár fjölskyldur saman til Krítar og vorum í dag að ákveða að hvert par fær FRÍ frá barni eða börnum sínum í 2 heila daga og kvöld. Vá, þá verður maður ungur aftur. Hvernig var aftur lífið fyrir Veru? Jú, maður flippar aðeins. Leigir sér vespu og þeysist um eyjuna frjáls eins og fuglinn, drekkur bjór og kokteila allan daginn, fer kannski á nektarströnd, á sjóskíði, í tívolí og labba rómó hönd í hönd í sjávarmálinu bara tvö...

Svo snúast allir hinir dagarnir auðvitað um Veruna. Sem verður bara gaman. Moka, sulla og busla í lauginni.

Já, þetta verður eitthvað nýtt fyrir alla í familíunni.
Gvuð, get ekki beðið! Bezt að fara bara að pakka...

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Útilegan rosalega 

Íslenskar útilegur eru brjálæði. Algjört brjálæði.
ÚTILEGA - hver leggur í slíkt athæfi með þessa merkingu? Að liggja úti og það á ÍSlandi. Í hávaða roki, dynjandi rigningu, sandstormi og ískulda. Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum manni í hug að fara í útilegu á Íslandi? Þá meina ég í tjaldi. Þetta ætti frekar að heita tjaldsvaðilfarir, tjaldbrjálæði, tjaldfok, tjaldlangavitleysa eða tjaldútilegaíískuldaogrokihvaðertaðpælamaður???!!!

Sumir eiga tjaldvagna og einbýli á hjólum og hafa þeir það betur en við hin sem verðum að láta okkur old school Ægistjöldin duga. Tjöldin leka, fjúka, tjaldsúlur brotna, það rennur á í gegnum svefntjaldið, það er hávaðasamt og ekki gleyma ís fokkings kalt.

Ég sá fyrir mér ljúft tjaldlíf á Arnarstapa um helgina. Með Veru mús bara á peysunni, leikandi sér sjálf í grasinu í góðum fíling. Sjálf væri ég í sólbaði að tjilla og kjafta við stelpurnar og Viggi að spila fótbolta með strákunum eða leika sér á fjórhjólinu sem hann fékk lánað fyrir helgina. Allir IMGarar væru vinir og makar að kynnast og leika sér.
Ehhh, ekki alveg...

Við lögðum í hann glöð í bragði á föstudag eftir vinnu. Ætluðum jú að leggja af stað um fjögur leytið en eins og góðu barnafólki sæmir seinkaði okkur um nokkra klukkutíma og rann bíllinn úr hlaði hjá Esso í Mosó um kl. hálfníu um kvöldið. Það þurfti að redda kerru fyrir fjórhjólið, og svo var kerran og lítil fyrir hjólið, og þá þurfti að redda annarri kerru, setja hjólið á kerruna, taka bensín, gefa Veru að borða, fá sér samloku og kók og skipta á kúkableyju áður en lagt var í hann af alvöru. Ferðin gekk svo vel fram af. Vera sofnaði og var hin ljúfasta og við á góðri siglingu (þó bara á 80-90 með þessa risakerru í aftanítogi) á leið á elsku Snæfellsnesið sem er svo fallegt og kyngimagnað og allt það.

Þegar bíllinn bilar. Það heyrðist bara kloooong og við rétt náðum að láta bílinn renna út af þjóðveginum og í innkeyrsluna á einhverjum bæ á leiðinni. Þetta gerðist þegar klukkan var að ganga miðnætti og um klukkutími í Arnarstapa. Kaldhæðni örlaganna stýrðu því þannig að bærinn hét því viðeigandi nafni GRÖF. Frábært. Fyrr færi ég sem sagt í gröfina en á Arnarstapa þessa helgi. Viggi lagðist undir bílinn eins og sönnun bílatöffara sæmir og varð týpan sem er ber að ofan með smurolíu í hárinu og dekk á öxlinni. Eða þið vitið. Hann stóð sig vel, en gat ekki lagað bílinn, því framdrifið hafði brotnað (eða framöxulinn og þar sem bíllinn var ekki splittaður að framan var ekki hægt að keyra hann þannig - kapító??!) og það vantaði varahluti til að komast áfram.

Á öðrum stað, nánar tiltekið á Arnarstapa, var Stebbi frábæri sem ætlar með okkur til Krítar nýkominn á staðinn og tssssssssssss var að opna fyrsta bjór kvöldsins. Þegar hann fékk símtal frá okkur þess efnis að hann yrði eiginlega að sækja okkur þar sem bíllinn væri bilaður. Frábært fyrir Stebba. En þar sem hann er öðlingsljúflingur sótti hann okkur sem betur fer. Við Vera höfðum húkt í bílnum á GRÖF í nokkra tíma á meðan Viggi reyndi að laga bílinn. Vera var reyndar bara spræk og var í bílstjóraleik. Ég viðurkenni að ég var hins vegar ekki alveg jafn hress. En við komumst á leiðarenda um miðja nótt og það fór lítið fyrir djammi og djúserí það kvöld, sem var annars ágætis kvöld veðurfarslega séð. Ég annars man það ekki ég var svo þreytt, en ég man að það var ekki rigning (getur það verið??).

Ég var nýsofnuð þegar ég vakna við byljandi dynjandi hávaða á tjaldinu. Ekta íslenskt sumarveður = rok og rigning var að láta heyra í sér. Og það var lítið sofið þá nótt. Vera hefur reyndar sjaldan sofið eins vel, þvílíkt dúðuð í flísgalla, með húfu, á gærunni með dúnsæng. Henni leið svo vel að hún svaf meira að segja í sömu stellingunni alla nóttina! Það var það EINA jákvæða við þetta óveður. Já, þetta var óveður. Tjöld fuku, fólk vaknaði með blautar sængur og tjöldin beisikklí ofan á sér. Ekki við samt, sem betur fer. Dagurinn tók við og tíska dagsins var svartur ruslapoki yfir öll rándýru vatnsheldu gore-tex fötin sem héldu að sjálfsögðu ekki því vatni sem okkur var skammtað að ofan. Svo plastpoki var það heillin. Kúl. Vera var reyndar að fíla þetta og kuðlaðist um svæðið í nýja pollagallanum sínum. Og svaf heillengi í kerrunni sinni í brjálaðri rigningu og roki. Spurning um að taka upp svona óveðurshljóð og spila þegar daman á erfitt með svefn! Við Viggi lékum okkur pínu á fjórhjólinu, eða ég lærði að skipta um gír á græjunni og rétt að taka í hana á meðan Viggi tætti upp drulluna og vatnið með brjálæðisglampa í augunum. Gaman, gaman!!! Svo kom brósi með varahlut úr bænum og saman lágu þeir Viggi undir bílnum í þó nokkuð margar klukkustundir, eða fram á kvöld. Æðislegt stuð fyrir þá.

Það ringdi klikkaðslega fram til að ganga 4 síðdegis. Þá var maður líka orðinn ansi þreyttur á þessu og ég veit ekki hvað ég hafði oft spurt mig hvað í andskotanum ég væri nú að pæla hér í þessu rugli. Af hverju var ég ekki bara heima í ljúfu lífi? Ég meina, hafið prófað að skipta á kúkableyju inni í tjaldi í ausandi rigningu með barnið kappklætt og í pollagalla og alles? Úff, það er þrekraun sem erfitt er að lýsa. Ég var alltaf á leiðinni heim, þegar ég fattaði að ég var ekki á bíl. Demit. Þetta var ERFIÐUR dagur. Og erfið helgi. Flestir félagarnir tóku rúntinn í óveðrinu á Ólafsvík í sund eða bara eitthvert til að eyða tíma og verja sig vatninu, en það var ekki í boði á þessum bænum. Bara bleyta og bið.

Svo stytti upp! Alveg lygilegt. Og Viggi og brósi komu á kagganum sem var eins og nýr. Eða næstum því. Það þarf víst að gera við hann fyrir fimmtíukall í viðbót, sjúff. Ég segi það satt að ég var hreinlega búin að gleyma því hvernig lífið væri án rigningar. Þá var partýtjaldinu hent upp í snatri og grillundirbúningurinn hófst. Það voru um 70 IMGarar með mökum og börnum sem snæddu góðan grillmat og fjörið stóð fram á nótt. Ég man að sólin kom upp eftir nokkra góða gítarslagara um kl. 4 og það var dýrðlegt. Jafn ömurlegur og rigningardagurinn með bilaða bílinn hafði verið var þessi nótt flott. En köld. Mér var ískalt enda með hósta og hálsbólgu í dag. Ég gat eiginlega ekki hugsað mér að fara að sofa vegna þess hve kalt mér var. Og ég vissi að svefnpokinn minn var ekki heitur eins og rúmið mitt. Svo ég dró það að fara að sofa eins lengi og ég gat. Og klukkan sló alla vega sex þegar ég lét vaða inn í kuldadraumaheiminn. Brrrrr.

Og svo er ég núna gjörsamlega uppgefin eftir helgina. Með einhverja magapest eins og margir aðrir IMGarar eftir helgina. Spurning með matareitrun, ég veit það ekki. Eða þá að við höfum smitað hvort annað þegar við vorum í kiss kiss og útaf eða eina mínútu í helvíti. Eitthvað var það alla vega.

Þótt þessi svaðilför hafi eftir á að hyggja verið skemmtileg og margar skemmtilegar stundir inn á milli sem hægt er að minnast með brosi, er þetta án efa erfiðasta útilega sem ég hef farið í. Bilaður bíll, magapest og hálsbólga, rigning og rok, ískuldi og bið. Kofinn er í rúst eftir allt útilegudótið. Gítarinn, fjórhjólið og góða skapið í Veru vega þetta þó næstum því upp.

Markmið vikunnar er að ganga frá öllu útilegudraslinu og þrífa kofann fyrir Krít sem nálgast óðum. Ah, það verður nú meiri frábæra útlenska útilegan. Þar verður gott að liggja úti. Fáklæddur og heitur. Með kokteil í annarri og ís í hinni. Engin rigning, ekkert rok, engin föt...

Svo ég endi nú samt á jákvæðum nótum þá var Vera þvílíkt að fíla þessa útilegu. Henni fannst hún ekkert erfið. Bara sulla í pollunum, leika við krakkana, sofa voða vel í tjaldinu og kerrunni, borða lambafillet og knúsa mömmu og pabba þegar þau voru að því komin að gefast upp...

Svona var nú sjóferð sú.
ALDREI AFTUR!!!
En skemmtilegar myndir samt...


Krúttið mitt! Posted by Picasa


Vera Landroverbílstjóri Posted by Picasa


Skarpi frændi kíkti frá Svíþjóð í heimsókn í rigninguna á Arnarstapa Posted by Picasa


Og það kom sól ótrúlegt en satt!! Posted by Picasa


Vera í tjaldinu Posted by Picasa


Smá skoðunarferð þegar stytti upp - Arnarstapi og Bárður Snæfellsás í baksýn Posted by Picasa


Vera á leið út í rigninguna í boltaleik Posted by Picasa


Vera tjillar í partýtjaldinu Posted by Picasa


Mamma töffari í svörtum ruslapoka á fjórhjólinu Posted by Picasa

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker